Lög Kristilegu skólahreyfingarinnar

 

(Breytt á ársþingi félagsins 20. apríl 2013 og aftur á ársþingi þann 7. apríl 2014)

I. UPPBYGGING

1. gr.

Aðilar að Kristilegu skólahreyfingunni (KSH) eru Kristileg skólasamtök (KSS) og Kristilegt stúdentafélag (KSF).

2. gr.

Æðsta ákvörðunarvald Skólahreyfingarinnar í öllum sameiginlegum málum er í höndum stjórnar hennar, sbr. 7. gr.

3. gr.

Ársþingið (sbr. V.) er ráðgjafi Skólahreyfingarinnar. Það kýs 5 aðila í stjórn (sbr. 6. gr. og 12. gr.).

II. GRUNDVÖLLUR

4. gr.

Skólahreyfingin og aðildarfélög hennar byggja á hinum hlutlæga (“objektiva”) hjálpræðisgrunni, sem lagður er af Jesú Kristi með friðþægingu hans fyrir syndir vorar og upprisu hans oss til réttlætingar, samkvæmt heilagri ritningu og játningarritum evangelísk-lútherskrar kirkju.

III. MARKMIÐ

5. gr.

Markmið Skólahreyfingarinnar er:

a) að sameina kristna stúdenta og skólanemendur til þess að styrkja og glæða trúarlíf þeirra.

b) að vinna aðra fyrir Jesúm Krist.

IV. STJÓRN

6. gr.

Í stjórn Skólahreyfingarinnar sitja 8 menn. Þeir eru:

a) Fulltrúi KFUM & KFUK & KSH í stjórn KSS.

b) Einn nefndur af hvoru aðildarfélagi (KSS & KSF).

c) Fimm aðalmenn og tveir varamenn kjörnir á ársþingi KSH (sbr. 12. gr.c). Kjörtímabil aðalmanna er tvö ár, en varamanna eitt ár. Haga skal kosningu þannig að eitt árið gangi þrír aðalmenn úr stjórn á ársþingi og ári síðar gangi tveir aðalmenn úr stjórn á ársþingi.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

Starfsmenn Skólahreyfingarinnar sitja stjórnarfundi án atkvæðisréttar.

7. gr.

Hlutverk stjórnar KSH er að:

a) móta grundvallarstefnu hreyfingarinnar í guðfræðilegum efnum og starfsháttum.

b) ráða starfsmenn og marka starfssvið þeirra.

c) sjá um rekstur Skólahreyfingarinnar.

d) sjá um útgáfu á vegum Skólahreyfingarinnar.

e) annast erlend samskipti.

8. gr.

Stjórn KSH velur úr sínum röðum þriggja manna framkvæmdastjórn er starfi í nánu samráði við starfsmann. Hlutverk framkvæmdastjórnar er að:

a) framfylgja samþykktum stjórnarinnar.

b) undirbúa stjórnarfundi.

c) fjalla um og afgreiða ýmis mál milli stjórnarfunda.

V. ÁRSÞING

9. gr.

Ársþingið skal haldið fyrir lok apríl ár hvert. Stjórnin skal boða til þess með a.m.k. 20 daga fyrirvara.

10. gr.

Stjórn KSH sér um að fyrir ársþingi liggi kjörseðill með nöfnum a.m.k. 7 manna sem gefa kost á sér til stjórnarkjörs.

11. gr.

Á ársþinginu sitja með atkvæðisrétti:

a) stjórn og starfsmenn í a.m.k. 50% starfi.

b) 10 fulltrúar frá hvoru aðildarfélagi.

12. gr.

Á ársþinginu skal:

a) stjórnin leggja fram til umfjöllunar og afgreiðslu: starfsskýrslu, reikninga, fjárhagsáætlun og starfsáætlun.

b) ræða og afgreiða framkomnar lagabreytingatillögur, enda hafi þær borist stjórn Skólahreyfingarinnar a.m.k. 10 dögum fyrir ársþing og verið kynntar í aðildarfélögunum.

c) stjórnarkjör, sbr. 6. gr.c

d) kjósa tvo skoðunarmenn reikninga. Skoðunarmenn reikninga skulu ekki vera hluti af stjórn KSH.

VI. STARFSSJÓÐUR

13. gr.

Stjórn Skólahreyfingarinnar skipar gjaldkera starfssjóðs. Í samráði við hann skal stjórnin sjá um fjármál KSH, vinna að gerð fjárhagsáætlunar, koma með tillögur til að tryggja fjárhaginn og sjá um að hrinda þeim í framkvæmd.

VII. AÐILDARFÉLÖG

14. gr.

a) Aðildarfélög bera sameiginlega ábyrgð á starfssjóði (13. gr.) og skulu taka eðlilegan þátt í fjáröflun til Skólahreyfingarinnar.

b) Ef aðildarfélag leggst niður af einhverjum ástæðum, skulu eignir þess renna til Skólahreyfingarinnar.

c) Ef skólahreyfingin leggst niður, skulu eignir hennar renna að jöfnum hlutum til Kristilegra skólasamtaka og Kristilegs stúdentafélags.

15. gr.

a) Vilji ný félög gerast aðilar að KSH, skal ársþing taka endanlega afstöðu til umsókna þeirra um aðild. Milli ársþinga má veita bráðabirgðaaðild, sé það einróma samþykkt í stjórninni.

b) Í stjórnir aðildarfélaganna má aðeins kjósa þá, sem játa persónulega trú, sbr. 4. gr.

VIII. LAGABREYTINGAR

16. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á ársþingi og þá með 2/3 greiddra atkvæða. Þó má alls ekki breyta gr. 4, 5 og 14.c, né öðru til ósamræmis við þær.