Kæru vinir og velunnarar KSH

posted in: Fréttir | 0

Eins og flest ykkar vitið er starf Kristilegu skólahreyfingarinnar gríðarlega mikilvægt. Þar fá ungmenni tækifæri til að kynnast Jesú Kristi, takast á við krefjandi verkefni, láta ljós sitt skína ásamt því að þau vaxa og þroskast í trúnni. Eitt helsta hlutverk Kristilegu skólahreyfingarinnar er að hafa fagmenntaðan starfsmann í starfi sem sinnir stjórnum og félagsmönnum Kristilegra skólasamtaka og Kristilegs stúdentafélags. Skólahreyfingin hefur lengi haft starfsmann í starfi og mikilvægi hans leynir sér ekki. Verkefni starfsmannsins eru mörg og sum hver falin en öll eru þau jafn mikilvæg. Stjórnir KSS og KSF hafa getað leitað til starfsmanns í tengslum við boðunarefni félaganna, undirbúning skóla-og stúdentamóta sem og annarra viðburða. Þá hefur starfsmaður einnig sinnt sálgæslu fyrir félagsmenn, stigið inn í erfið mál þegar þörf hefur verið á og sinnt samskiptum við foreldra. Þessi stuðningur og þjónusta við félagsmenn okkar er okkur hjartans mál.

Seint í haust auglýsti stjórn KSH eftir starfsmanni í 50% stöðugildi til að sinna þessarri þjónustu við félögin okkar en Sr.Jón Ómar Gunnarsson lét af störfum í september. Þrír umsækjendur voru um stöðuna og nú í desember tók stjórnin ákvörðun um að ráða Sr.Svein Alfreðsson til starfa frá og með 1.janúar nk. Það er ósk okkar að kraftar hans verði til blessunar fyrir KSS og KSF og hlökkum við mikið til að starfa með honum.

Fjárhagsstaða KSH er afar erfið, ef ekki næst að auka fjárhagslegar tekjur félagsins umtalsvert þá er ljóst að erfitt getur reynst að halda út starfsmanni til framtíðar. Tekjur KSH eru nær eingöngu gjafir frá velunnurum ásamt styrkjum og hafa þær gert okkur kleift að hafa starfsmann í starfi fyrir skólahreyfinguna. Styrkir hafa dregist mikið saman undanfarið og skýrir það að hluta til slæma stöðu félagsins nú.

Í ljósi þessa leitum við til þín um aðstoð. Fyrst og fremst viljum við biðja þig að biðja fyrir starfinu og þeim fjárhagserfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Síðan viljum við bjóða þér að gerast meðlimur í gjafakerfi KSH ef þú ert ekki þegar í gjafakerfinu. Það er auðvelt að skrá sig og mánaðarlegt framlag þarf ekki að vera hátt, þú velur upphæðina. Margt smátt gerir eitt stórt.

Óháð því hvort að þú hafir tök á því að styrkja samtökin með peningum þá geta allir beðið fyrir starfseminni. Einnig er auðvelt fyrir alla að láta þessar frétt berast og athuga hvort samferðarfólk okkur úr félögunum geti einnig styrkt okkur.

Aftast í þessum Tengli eru upplýsingar hvernig hægt er að skrá sig í gjafakerfið eða styrkja okkur með einni greiðslu.

Með ósk um Guðs blessun, Stjórn KSH