Kristileg skólahreyfing er samstarfsvettvangur fyrir KSS (Kristileg skólasamtök) og KSF (Kristilegt stúdentafélag). Yfir KSH er stjórn sem kosin er á árlegu ársþingi og hlutverk hennar er að fylgjast með starfi félaganna og bera ábyrgð á starfsmannamálum en undanfarin ár hefur hreyfingin verið með starfsmann í hálfu starfi. Sr. Ólafur Jón Magnússon gegnir starfinu og hefur hann aðsetur á skrifstofu Sambands íslenskra kristniboðsfélaga Háaleitisbraut 58-60.

Kristileg skólasamtök – KSS

KSS, eða Kristileg skólasamtök, voru stofnuð 1946 og eru félag fyrir ungt fólk á aldrinum 15-20 ára. Félagsmenn halda fundi á laugardagskvöldum kl. 20:30 að Holtavegi 28, húsi KFUM & KFUK, í Reykjavík. Félagið vinnur að eflingu og útbreiðslu kristinnar trúar meðal nemenda í 10.bekk grunnskóla og samræmdum framhaldsskóla.

Kristilegt stúdentafélag – KSF

Kristilegt stúdentafélag (KSF) var stofnað 1936 og starfar innan Þjóðkirkjunnar og Háskóla Íslands. KSF er einnig aðili að IFES (International Fellowship of Evangelical Students) sem eru alþjóðleg samtök kristilegra stúdentfélaga. Markmið félagsins er að sameina trúaða stúdenta og aðra á aldrinum 20-30 ára til þess að styrkja og glæða trúarlíf þeirra og boða fagnaðarerindið um Jesú Krist. Félagið er með fundi alla fimmtudaga kl. 20:00 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60. Fundir KSF byggjast upp á lofgjörð í gegnum tónlist, bænastund og ræðu frá ræðumanni. Ræðurnar eru á bilinu 10-20 mín langar og fjalla ýmist um áhugaverð efni tengd kristinni trú eða trúarlega uppbyggingu. Eftir fundi er gjarnan spilað, farið í bíó, keyptur ís eða eitthvað annað skemmtilegt og uppbyggilegt.